Elsku Þórbergur

Ekki finnst mér ótrúlegt að hann hafi verið kvennagull. Ég varð að minsta kosti skotin í honum þegar ég las þetta:

"Fyrir mörgum árum þekti ég svolítinn kött. Við áttum heima í sama húsi. Ég kom í húsið í október um haustið. Þá var kisa fjögurra mánaða. Hún var hrafnsvört, með hvítan kraga um hálsinn. Hún minti mig alt af á hempuklæddan klerk með prestakraga. Kisa var silkimjúk viðkomu og góðlynd við alla. Hún var ekki enn þá farin að átta sig á því, að nú væri hún fædd í fávísan mannaheim, sem heldur, að dýrin séu sköpuð sér til skemtunar. 


Kisa litla átti ekki sjö dagana sæla. Enginn í húsinu bjó yfir svo auðvirðilegum duttlungum, að brýnustu þarfir kisu yrðu ekki að lúta fyrir þeim í lægra haldi. Stundum fann einhver krakkanna upp á því að vilja hvergi sitja nema á stólnum, sem kisa svaf á, þó að fult væri af öðrum sætum í stofunni. Þá var kisa rifin upp af fastasvefni og kastað út í horn. Greyið leit syfjuðum augunum lúpulega í kringum sig og skreið í felur. Þegar einhver var gripinn af löngun til að draga kött á rófunni, var þrifið í stýrið á kisu litlu og henni snarsnúið. Aumingja kisa skrækti af sársauka. Þá var hlegið. Oft var hún dregin á skegginu til og frá um gólfið. Það þótti ágæt skemtun.


Á hverju kvöldi var kisa litla byrgð úti í gisnum timburhjalli, sem kaldur vetrarvindurinn blés í gegnum. Þar var henni vísað til rúms á pokagarmi, sem breiddur var á kolakassa. Kisu leið illa í þessari vistarveru, eftir að veturinn lagðist að með snjó og kulda, og hún smaug út um rifur á hjallinum í þeirri von, að miskunnsemi mannanna skyti yfir sig hlýrra skjólshúsi. En það urðu ekki margir til að líkna kisu.


Eina nótt í nóvembermánuði kom ég heim um eittleytið. Allir voru í fastasvefni nema kisa. Hún sat skjálfandi við dyrnar. Frost var á og norðanstormur, og kisa hafði ekki afborið vistina í hjallinum. Kisa vældi aumkunarlega og nuddaði sér við fætur mér. Það var hennar bæn um líkn. "Aumingja kisa!" sagði ég. "Í nótt skaltu lúra á fótum mínum." Og ég bar hana inn í ofnhitann. Kisa tók að sleikja sig og mala. Nú færðist ylur í litla skinnið. Á hverju kvöldi síðan beið hún mín við dyrnar, þegar ég kom heim.


Svo fluttist ég úr húsinu. Þá varð hjallurinn aftur athvarf kisu. Á jólaföstu árið eftir fór að brydda á lasleika í kisu litlu. Hún hætti að éta og varð sljó og rytjuleg. Enginn fékst um að leita henni lækninga. Á jólamorguninn lá hún liðið lík á kolakassanum.


Kisa mátti ekki sofa í íveruhúsinu. Hún gat velt um einhverju af þessu skrani, sem vesalings fólkið hafði hreykt þar upp andleysi sínu til augnagamans. Aumingja kisa var látin hírast í köldum og dimmum hjallgarmi. Sjálfa jólanóttina háði hún þar dauðastríð sitt í myrkri og kulda. Til þess lét Kristur líf sitt á krossinum."

Þóbergur Þórðarson. 1950. Bréf til Láru. IV. útg.

 

Ég vona að ég fái bókina í jólagjöf.


mbl.is Þórbergur ekki við eina fjölina felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Ég sá mig tilneyddan að opna þetta blogg þar sem ég hélt að fyrirsögnin ætti að höfða til mín.

Já hann náttaði ekki alltaf snemma þó kalsaveður væri hann Þórbergur Þórðarson.

Þórbergur Torfason, 20.11.2007 kl. 17:41

2 Smámynd: Kona

Takk fyrir að opna það. Ég hefði ekki fyrir mitt litla líf vilja missa af stuðinu í athugasemda kerfinu þínu! ;)

Kona, 20.11.2007 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband