Af pöbbum og mömmum

 

Hugtakið "góður pabbi" er svolítið að þvælast fyrir mér þessa dagana. Hver er góður pabbi?  

 

Ef ég geng út frá sjálfri mér þá er pabbi sem gerir allt það sem venjuleg mamma gerir, alveg æðislega góður pabbi. Maður sem sinnir börnunum sínum lítið eða ekkert er hinsvegar slæmur pabbi. Ég þekki nokkra æðislega góða pabba, en hinsvegar kannast ég ekkert við að þekkja æðislega góða mömmu. Samt þekki ég ekki heldur neina slæma mömmu.  Kona þarf nefnilega að vera ansi mikið frík til þess að fá merkimiðann "slæm mamma" - hún verður að setja sjálfa sig í fyrsta sætið, oftar en hún setur börnin í fyrsta sætið, hún þarf að vera gráðug starfsframa bitch, eða jafnvel ódauðlegur djammari. Að sama skapi þarf kona að vera yfirnáttúrulega góð til þess að fá góðu mömmu-miðann.   

 

Nánast allar konur sem ég þekki eru einstæðar mæður og ágætis konur. Þær hugsa vel um börnin sín - samt man ég ekki eftir að þekkja eina einustu æðislega góða mömmu. Ekki ein einasta sem ég myndi tala um og segja "Hún er með ljóst millisítt hár, manstu ekki hver það er, hún er alltaf svo hress og já svo er hún alveg æðislega góð mamma líka! Núna manstu hver hún er, er það ekki?" 

 

Ég fór að hugsa þetta allt í tilefni þess að eitt af dagblöðunum er með "þemaviku" sem fjallar m.a. um föðurhlutverkið. Um daginn var eftirlýsing í einu blaðinu. "Varst þú óskyldurækinn faðir, sendu okkur þá söguna þína". Og ekki stóð á svörum, fullt af mönnum voru tilbúnir að tjá sig. Þ.e.a.s. eftir að nafnkunnir einstaklingar höfðu riðið á vaðið og játað að hafa verið ömurlegir pabbar. 

 

Það pirrar mig óstjórnlega þegar frægir menn birtast í heilsíðuviðtölum og tala um að þeir hafi verið "deadbeat" pabbar. Frægu mönnunum ber að sjálfsögðu skylda til að vera gott fordæmi, þess vegna opna þeir gjarna svona umræður. Svo almúganum líði betur þegar hann játar syndir sínar. Voðalegar játningar, nú skal talað út! (í Svíþjóð er í tísku  að tala út, samkvæmt formúlunni verður fólk bælt ef það talar ekki út um allan fjandann)  

 

Oftast er menn búnir að missa af lestinni þegar þeir fá "þumalputtann úr rassgatinu á sér" [innskot: þetta er sænskt orðatiltæki sem ég snaraði í skyndi yfir á íslensku] og vilja tala út. Þess vegna eru forsíðumennirnir yfirleitt grátbólgnir miðaldra menn, "ég var óskyldurækinn faðir", "ég missti af uppeldi barnanna minna vegna þess að ég lét ekkert koma í veg fyrir að ég öðlaðist frægð og frama". Búhú.  

 

Það versta er að ég hef stundum grenjað með, og yfir miðaldra mönnum. Þó svo að ég vorkenni þeim ekki neitt. Hver græðir eignilega á opinberri játningu? Ekki eru það börnin, þau skammast sín alveg örugglega nógu mikið fyrir að eiga og hafa alltaf átt ónytjunga fyrir feður. Er gaman fyrir þau að fá það þrykkt á forsíður dagblaðanna líka?  Það eru pabbarnir sem græða, í þeirra huga er úttal í pressu eins konar syndaaflausn og þar að auki fá þeir klapp á bakið fyrir að vera hugaðir, sýna gott fordæmi vera tilbúnir til að tala út og líta svolítið í eigin barm. Það var þá hetjuskapurinn. 

 

Svo eru það góðu pabbarnir. Ég þekki marga þannig. Yfirleitt vita þeir alveg hversu góðir þeir eru. Oft er það nefnilega þannig að menn taka meðvitaða ákvörðun um að verða góðir pabbbar. Hver kannast ekki við setningu eins og þessa: Þegar konan mín varð ófrísk þá  ákvað ég að verða aldrei jafn glataður og pabbi minn var þegar ég var að alast upp.  

 

Ef þeir hafa ekki tekið meðvitaða ákvörðun, þá vita þeir það samt. Vegna þess að við erum öll erum svo dugleg að klappa þeim á bakið og segja þeim hversu stórkostlegir þeir séu.

Kona er hinsvegar alltaf "bara" mamma. Nema hún eigi ekki börn. Það skiptir engu máli þó svo að kona taki meðvitaða ákvörðun um að vera frábærasta mamma í heimi, það er ekki í boði. 

 

Góðu pabbarnir fá líka klapp á bakið þegar þeir fara í fæðingaorlof - til þess að vera með börnunum sínum, taka frí í vinnunni þegar börnin eru með eyrnabólgu, elda mat á kvöldin, svæfa, sækja í leikskóla, mæta á foreldrafundi, fara með börnin á róló um helgar,  vekja og klæða á morgnana, hjálpa til við að taka til í herbergjum, hugga unglingana þegar þeir lenda í ástarsorg, keyra á skólaböll, kenna muninn á réttu og röngu....já þið vitið, gera allt sem  mömmur gera bara vegna þess að þær eru venjulegar mömmur. Hvað finnst mér eiginlega svona gott við það?  

 

Ég var einu sinni í skóla með strák sem átti tvo börn á leikskólaaldri. Mamma barnanna var hið versta skass. Hún var svo upptekin af því að öðlast frægð og frama að hann kallið mömmuna frík, þegar börnin heyrðu ekki til. Pabbinn þurfti oft að taka börnin með sér í skólann (!) vegna þess að hann var svo góður pabbi og þurfti að hugsa um þau. Öllum í skólanum var farið að þykja ofurvænt um vesalings umkomulausu börnin, sem í okkar augum voru nánast munaðarlaus. Okkur fannst hann svo duglegur að planera lífið sitt svolítið kringum þau.  

 

Núna gæti einhver spurt: Ha - hvaða maður var það?

Þá gæti ég svarað: Manstu ekki, hann var með dökkt skegg, alltaf svo hress og svo var hann sjúklega góður pabbi. Manstu ekki eftir honum?

Þá yrði svarið: Já hann! Auðvitað man ég eftir Frikka!

 

Sjáið þið hvað þetta er brenglað?

 

 Ég auglýsi hér með eftir umfjöllun um slæmar mömmur. Ég heimta heilsíðuvitöl og forsíður í heila viku. Og góðu mömmurnar hvar eru þær, má ekki aðeins fara að tala um þær líka? 

 

Góðir pabbar, slæmir pabbar; þið megið kalla ykkur hvað sem þið viljið. Mér er alveg sama hvort þið eruð. Þetta eru vinsamleg tilmæli frá mér: Talið út annarstaðar en í dagblöðum sem þrykkja ykkar grátbólgnu trýni á forsíðurnar. Þið eruð ekkert merkilegri en annað fólk. Jafnvel þó svo að þið séuð með sérútbúna merkimiða.  

 

Hvers vegna í ósköpunum þarf alltaf að vera að tala um pabbahlutverkið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Skil þig, nær þeir sneru sér að börnunum, bæðu fyrirgefningar og reyndu að fá leyfi þeirra til að fá að bæta þeim eitthvað upp. Það má lengi laga... Og láta sér svo nægja að lesa helv.. blöðin.

Jónína Dúadóttir, 21.11.2007 kl. 07:25

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Pé ess : Hrikalega góð grein hjá þér !! Fattaði allt í einu að líklega lest þú ekki hugsanir....

Jónína Dúadóttir, 21.11.2007 kl. 07:27

3 identicon

Æji Jónína Dúa, plís hættu þessu kjaftæði.

Magnús Einar (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 17:50

4 Smámynd: Kona

Takk Jónína Dúa :)

Magnús Einar: Það er bannað að vera með dónaskap. 

Kona, 4.12.2007 kl. 02:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband