Elskan mín eina

Það eru til menn sem hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru giftir gömlum konum.

Fyrir svona hérumbil tíu dögum var ég að suða og rella í Óla um eitthvað. Akkúrat núna man ég ekki hvað það var, en mig gæti alveg rámað í að hafi verið expressó vél. Mig langar svo í þannig, mér finnst það svo fullorðins og mikil nauðsyn á hvert heimili. Manninn minn langar ekkert í þannig, en hann er nú svo sætur í sér að hann vill auðvitað að ég fái það sem mig langar í. Þannig að á viðkvæmu augnabliki missti hann út úr sér: "fyrst þú átt stórafmæli núna, þá getum við alveg keypt vél fyrir þig".

Ha stórafmæli, ekki heldur maðurinn að ég sé að verða fertug - hugsaði ég og var vitanlega alveg að fara að tjúllast. Á meðan ég var að gera það upp við mig hvort ég ætti að taka karate eða kung-fu - spark á manninn þá heldur hann áfram: "Já segjum það þá bara, þú færð vélina núna um jólin, en þá er það 35 ára gjöfin þín."
Hvað gera bændur nú? Það fyrsta sem ég gerði var að horfa á hann eins og hann væri ekki alveg í lagi, svo ákvað ég að taka tilboðinu ( og sagði "vax on, vax off" til að hann fattaði ekki hvers vegna ég var komin í karatestellingar) Það er ekki amalegt að yngjast um tvö ár og fá lattevél í kaupbæti. Er ég nokkuð vond - má þetta ekki alveg?
Svo liðu einhverjir dagar, og alltaf minnti ég Óla á að senn kæmi að afmælinu og hvort við ættum ekki að reyna að finna vél. "Þær eru ógeðslega dýrar", sagði ég en Óli vissi allt um það...ef hann sagði bara "humm" þegar ég var að rella, þá sagði ég: "EN MAÐUR Á NÚ EKKI STÓRAFMÆLI Á HVERJU ÁRI - HA ÓLI, ER ÞAÐ NOKKUÐ? HA!" Ég gaf honum alveg möguleika á að skipta um skoðun, en nei vélin skyldi keypt.
Margir dagar liðu og mér var farið að finnast þetta allt saman svolítið skondið. Að vísu sveiflaðist ég á milli þess að halda að hann væri að grínast og þess að spá í hvort ég ætti að vera fúl yfir því að hann hafi ekki glóru um það hversu gömul ég er. En á sunnudagskvöldið var ákveðið að við færum í bæjarferð að morgni dags, þá kættist ég. Svo mikið að ég fékk hláturskast. Ólafur, sem var búinn að setja upp eyrnatappa, spurði hvað væri eiginlega að mér. Þá sagði ég: "Æi farðu að sofa, þú ert svo mikill vitleysingur." Þarna var ég að gefa honum einn möguleikann í viðbót. Svo hló ég smá meira.
Jæja, í gær fórum við á rölt. Þegar hér var komið við sögu var það á kristaltæru að það var ekkert grín í gangi. Ég er nú ekki algjört svín þannig að ég strunsaði mjög hratt fram hjá vélunum sem kostuðu næstum því jafn mikið og nýi Volvoinn. Staldraði samt aðeins við, leit beint í augun á manninum mínum og sagði: "Hefði ég orðið FERTUG í ár, þá hefði ég tekið þessa á afborgunum!" Ég meina það, ef hann bætt á mig þremur árum í stað þess að yngja mig, þá hefði ég sett okkur á hausinn. Það hefði ekki verið neitt "vax on" eftir svoleiðis svívirðingar.
Og svo fann ég hana loksins. Elskuna mína. Hún er lítil, sæt, ítölsk og einföld. En samt alvöru og alveg fín fyrir konu eins og mig sem á ekki stórafmæli fyrr en eftir þrjú ár.
Þegar við löbbuðum svo út úr búðinni (og ég var búin að þakka MJÖG vel fyrir mig) þá sagði ég honum að ég ætti ekkert stórafmæli. "Óli ég verð 37 ára núna, ekki 35 ára." Eftir að hafa rætt þetta allt saman svolitla stund, og þegar hann hafði útskýrt að honum fyndist ekkert mjög mikilvægt að muna hvað fólk er gamalt, þá sagði ég: "Nei en það væri nú samt skemmtilegra að eiga mann sem hefði smá hugmynd um það, ég meina þú mátt alveg reyna að muna hvað ár ég fædd svona einu sinni".
Án þess að hugsa sig um tvisvar svaraði hann: "En ég hef alltaf munað hvaða ár þú ert fædd, þó svo að ég hafi ekki verið að spá í nákvæmlega hvað þú ert gömul. Þú ert fædd  nítánhundruðsjötíogTVÖ."
Ég elskann samt og allt það, en er þetta hægt?!?

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þetta er bara dásamlegt

Jónína Dúadóttir, 14.11.2007 kl. 16:31

2 Smámynd: Kona

Ólinn minn er dásamlegur. Takk fyrir að lesa :)

Kona, 14.11.2007 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband