Færsluflokkur: Bloggar
13.1.2008 | 22:55
Botnlangakast dauðans
Mamman: Má ég sjá þig, er þetta hægra megin, leyfðu mér að skoða þig þetta gæti verið botnlanginn. [mamman ýtir og sleppir eftir kúnstarinnar reglum]
Gelgjan: ÆI!!!! Þú meiðir mig þaddna!!!
Mamman: Er vont þegar ég sleppi?
Gelgjan: NEI, þegar þú ÝTIR
Mamman: Þá er þetta ekki botnlanginn, ég er farin í bað
Gelgjan lokar sig inni á klósetti og mamman fattar að eitthvað er í gangi. Bank bank..
Mamman: Ertu að gráta?
Gelgjan: Nei [sýgur upp í nefið] FARÐU!
Mamman opnar hurðina með skrúfjárni
Gelgjan: Amma dó næstum því þegar hún fékk í botnlangann [snýtir sér] hún hefði getað DÁIÐ
Mamman: Þú ert ekki að deyja. [knúsar barnið sem streitist á móti] það var fyrir 40 árum og þú ert ekki einu sinni með hita. Amma var búin að vera með hita lengi áður en hú dó næstum því. Svo var allt öðruvísi fyrir 40 árum, engin fattaði að þetta væri bontlanginn en núna er allt svo tæknilegt og enginn deyr úr botnlangakasti lengur. Og þú ert ekki að deyja ég lofa því...
Gelgjan: Jú víst, það mundi geta skeð! [labbar kjökrandi inn í herbergi þar sem að besta vinkonan bíður og þær byrja að háma í sig ostapopp]
Mamman: Ja ég er allavega farin í bað...bankaðu hjá mér ef þér finnst þú vera að versna, annars skulum við bíða í svona hálftíma og ef þetta lagast ekki þá förum við upp á spítala...
Gelgjan: Ef ég verð ekki DAUÐ! [núna er gelgjan byrjuð að setja á sig maskara, ekki gott að fara í botnlangauppskurð án maskara]
Mamman við vinkonuna: Viltu fylgjast með því hvort hún sé nokkuð á leiðinni að andast á meðan ég er í baði - ég verð mjög snögg...
Gelgjan: MAAAMMMA þú ert ekki FYNDIN
Mamman: Jú ég er MJÖG fyndin, he he
Gelgjan stendur upp. Með munninn fullan af ostapoppi og vopnuð maskara segir hún: Farð þú þá bara í bað á meðan DÓTTIR ÞÍN er dauðvona!! Þú ert alltaf svo leiðinleg við mig!! [hurð skellt á nefið á mömmunni]
Ha ha, mömmunni finnst gaman að eiga gelgjustelpu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 17:33
Elsku Þórbergur
Ekki finnst mér ótrúlegt að hann hafi verið kvennagull. Ég varð að minsta kosti skotin í honum þegar ég las þetta:
"Fyrir mörgum árum þekti ég svolítinn kött. Við áttum heima í sama húsi. Ég kom í húsið í október um haustið. Þá var kisa fjögurra mánaða. Hún var hrafnsvört, með hvítan kraga um hálsinn. Hún minti mig alt af á hempuklæddan klerk með prestakraga. Kisa var silkimjúk viðkomu og góðlynd við alla. Hún var ekki enn þá farin að átta sig á því, að nú væri hún fædd í fávísan mannaheim, sem heldur, að dýrin séu sköpuð sér til skemtunar.
Kisa litla átti ekki sjö dagana sæla. Enginn í húsinu bjó yfir svo auðvirðilegum duttlungum, að brýnustu þarfir kisu yrðu ekki að lúta fyrir þeim í lægra haldi. Stundum fann einhver krakkanna upp á því að vilja hvergi sitja nema á stólnum, sem kisa svaf á, þó að fult væri af öðrum sætum í stofunni. Þá var kisa rifin upp af fastasvefni og kastað út í horn. Greyið leit syfjuðum augunum lúpulega í kringum sig og skreið í felur. Þegar einhver var gripinn af löngun til að draga kött á rófunni, var þrifið í stýrið á kisu litlu og henni snarsnúið. Aumingja kisa skrækti af sársauka. Þá var hlegið. Oft var hún dregin á skegginu til og frá um gólfið. Það þótti ágæt skemtun.
Á hverju kvöldi var kisa litla byrgð úti í gisnum timburhjalli, sem kaldur vetrarvindurinn blés í gegnum. Þar var henni vísað til rúms á pokagarmi, sem breiddur var á kolakassa. Kisu leið illa í þessari vistarveru, eftir að veturinn lagðist að með snjó og kulda, og hún smaug út um rifur á hjallinum í þeirri von, að miskunnsemi mannanna skyti yfir sig hlýrra skjólshúsi. En það urðu ekki margir til að líkna kisu.
Eina nótt í nóvembermánuði kom ég heim um eittleytið. Allir voru í fastasvefni nema kisa. Hún sat skjálfandi við dyrnar. Frost var á og norðanstormur, og kisa hafði ekki afborið vistina í hjallinum. Kisa vældi aumkunarlega og nuddaði sér við fætur mér. Það var hennar bæn um líkn. "Aumingja kisa!" sagði ég. "Í nótt skaltu lúra á fótum mínum." Og ég bar hana inn í ofnhitann. Kisa tók að sleikja sig og mala. Nú færðist ylur í litla skinnið. Á hverju kvöldi síðan beið hún mín við dyrnar, þegar ég kom heim.
Svo fluttist ég úr húsinu. Þá varð hjallurinn aftur athvarf kisu. Á jólaföstu árið eftir fór að brydda á lasleika í kisu litlu. Hún hætti að éta og varð sljó og rytjuleg. Enginn fékst um að leita henni lækninga. Á jólamorguninn lá hún liðið lík á kolakassanum.
Kisa mátti ekki sofa í íveruhúsinu. Hún gat velt um einhverju af þessu skrani, sem vesalings fólkið hafði hreykt þar upp andleysi sínu til augnagamans. Aumingja kisa var látin hírast í köldum og dimmum hjallgarmi. Sjálfa jólanóttina háði hún þar dauðastríð sitt í myrkri og kulda. Til þess lét Kristur líf sitt á krossinum."
Þóbergur Þórðarson. 1950. Bréf til Láru. IV. útg.
Ég vona að ég fái bókina í jólagjöf.
Þórbergur ekki við eina fjölina felldur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2007 | 17:12
Af pöbbum og mömmum
Hugtakið "góður pabbi" er svolítið að þvælast fyrir mér þessa dagana. Hver er góður pabbi?
Ef ég geng út frá sjálfri mér þá er pabbi sem gerir allt það sem venjuleg mamma gerir, alveg æðislega góður pabbi. Maður sem sinnir börnunum sínum lítið eða ekkert er hinsvegar slæmur pabbi. Ég þekki nokkra æðislega góða pabba, en hinsvegar kannast ég ekkert við að þekkja æðislega góða mömmu. Samt þekki ég ekki heldur neina slæma mömmu. Kona þarf nefnilega að vera ansi mikið frík til þess að fá merkimiðann "slæm mamma" - hún verður að setja sjálfa sig í fyrsta sætið, oftar en hún setur börnin í fyrsta sætið, hún þarf að vera gráðug starfsframa bitch, eða jafnvel ódauðlegur djammari. Að sama skapi þarf kona að vera yfirnáttúrulega góð til þess að fá góðu mömmu-miðann.
Nánast allar konur sem ég þekki eru einstæðar mæður og ágætis konur. Þær hugsa vel um börnin sín - samt man ég ekki eftir að þekkja eina einustu æðislega góða mömmu. Ekki ein einasta sem ég myndi tala um og segja "Hún er með ljóst millisítt hár, manstu ekki hver það er, hún er alltaf svo hress og já svo er hún alveg æðislega góð mamma líka! Núna manstu hver hún er, er það ekki?"
Ég fór að hugsa þetta allt í tilefni þess að eitt af dagblöðunum er með "þemaviku" sem fjallar m.a. um föðurhlutverkið. Um daginn var eftirlýsing í einu blaðinu. "Varst þú óskyldurækinn faðir, sendu okkur þá söguna þína". Og ekki stóð á svörum, fullt af mönnum voru tilbúnir að tjá sig. Þ.e.a.s. eftir að nafnkunnir einstaklingar höfðu riðið á vaðið og játað að hafa verið ömurlegir pabbar.
Það pirrar mig óstjórnlega þegar frægir menn birtast í heilsíðuviðtölum og tala um að þeir hafi verið "deadbeat" pabbar. Frægu mönnunum ber að sjálfsögðu skylda til að vera gott fordæmi, þess vegna opna þeir gjarna svona umræður. Svo almúganum líði betur þegar hann játar syndir sínar. Voðalegar játningar, nú skal talað út! (í Svíþjóð er í tísku að tala út, samkvæmt formúlunni verður fólk bælt ef það talar ekki út um allan fjandann)
Oftast er menn búnir að missa af lestinni þegar þeir fá "þumalputtann úr rassgatinu á sér" [innskot: þetta er sænskt orðatiltæki sem ég snaraði í skyndi yfir á íslensku] og vilja tala út. Þess vegna eru forsíðumennirnir yfirleitt grátbólgnir miðaldra menn, "ég var óskyldurækinn faðir", "ég missti af uppeldi barnanna minna vegna þess að ég lét ekkert koma í veg fyrir að ég öðlaðist frægð og frama". Búhú.
Það versta er að ég hef stundum grenjað með, og yfir miðaldra mönnum. Þó svo að ég vorkenni þeim ekki neitt. Hver græðir eignilega á opinberri játningu? Ekki eru það börnin, þau skammast sín alveg örugglega nógu mikið fyrir að eiga og hafa alltaf átt ónytjunga fyrir feður. Er gaman fyrir þau að fá það þrykkt á forsíður dagblaðanna líka? Það eru pabbarnir sem græða, í þeirra huga er úttal í pressu eins konar syndaaflausn og þar að auki fá þeir klapp á bakið fyrir að vera hugaðir, sýna gott fordæmi vera tilbúnir til að tala út og líta svolítið í eigin barm. Það var þá hetjuskapurinn.
Svo eru það góðu pabbarnir. Ég þekki marga þannig. Yfirleitt vita þeir alveg hversu góðir þeir eru. Oft er það nefnilega þannig að menn taka meðvitaða ákvörðun um að verða góðir pabbbar. Hver kannast ekki við setningu eins og þessa: Þegar konan mín varð ófrísk þá ákvað ég að verða aldrei jafn glataður og pabbi minn var þegar ég var að alast upp.
Ef þeir hafa ekki tekið meðvitaða ákvörðun, þá vita þeir það samt. Vegna þess að við erum öll erum svo dugleg að klappa þeim á bakið og segja þeim hversu stórkostlegir þeir séu.
Kona er hinsvegar alltaf "bara" mamma. Nema hún eigi ekki börn. Það skiptir engu máli þó svo að kona taki meðvitaða ákvörðun um að vera frábærasta mamma í heimi, það er ekki í boði.
Góðu pabbarnir fá líka klapp á bakið þegar þeir fara í fæðingaorlof - til þess að vera með börnunum sínum, taka frí í vinnunni þegar börnin eru með eyrnabólgu, elda mat á kvöldin, svæfa, sækja í leikskóla, mæta á foreldrafundi, fara með börnin á róló um helgar, vekja og klæða á morgnana, hjálpa til við að taka til í herbergjum, hugga unglingana þegar þeir lenda í ástarsorg, keyra á skólaböll, kenna muninn á réttu og röngu....já þið vitið, gera allt sem mömmur gera bara vegna þess að þær eru venjulegar mömmur. Hvað finnst mér eiginlega svona gott við það?
Ég var einu sinni í skóla með strák sem átti tvo börn á leikskólaaldri. Mamma barnanna var hið versta skass. Hún var svo upptekin af því að öðlast frægð og frama að hann kallið mömmuna frík, þegar börnin heyrðu ekki til. Pabbinn þurfti oft að taka börnin með sér í skólann (!) vegna þess að hann var svo góður pabbi og þurfti að hugsa um þau. Öllum í skólanum var farið að þykja ofurvænt um vesalings umkomulausu börnin, sem í okkar augum voru nánast munaðarlaus. Okkur fannst hann svo duglegur að planera lífið sitt svolítið kringum þau.
Núna gæti einhver spurt: Ha - hvaða maður var það?
Þá gæti ég svarað: Manstu ekki, hann var með dökkt skegg, alltaf svo hress og svo var hann sjúklega góður pabbi. Manstu ekki eftir honum?
Þá yrði svarið: Já hann! Auðvitað man ég eftir Frikka!
Sjáið þið hvað þetta er brenglað?
Ég auglýsi hér með eftir umfjöllun um slæmar mömmur. Ég heimta heilsíðuvitöl og forsíður í heila viku. Og góðu mömmurnar hvar eru þær, má ekki aðeins fara að tala um þær líka?
Góðir pabbar, slæmir pabbar; þið megið kalla ykkur hvað sem þið viljið. Mér er alveg sama hvort þið eruð. Þetta eru vinsamleg tilmæli frá mér: Talið út annarstaðar en í dagblöðum sem þrykkja ykkar grátbólgnu trýni á forsíðurnar. Þið eruð ekkert merkilegri en annað fólk. Jafnvel þó svo að þið séuð með sérútbúna merkimiða.
Hvers vegna í ósköpunum þarf alltaf að vera að tala um pabbahlutverkið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.11.2007 | 16:53
Veruleikafirring
Sumir kaupa sér eyju og safna krökkum í öllum regnbogans litum. Ég bý í blokk og safna ekki einu sinni frímerkjum.
Verði þeim að góðu.
Brad Pitt og Angelina Jolie keyptu sér eyju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.11.2007 | 16:19
Elskan mín eina
Það eru til menn sem hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru giftir gömlum konum.
Fyrir svona hérumbil tíu dögum var ég að suða og rella í Óla um eitthvað. Akkúrat núna man ég ekki hvað það var, en mig gæti alveg rámað í að hafi verið expressó vél. Mig langar svo í þannig, mér finnst það svo fullorðins og mikil nauðsyn á hvert heimili. Manninn minn langar ekkert í þannig, en hann er nú svo sætur í sér að hann vill auðvitað að ég fái það sem mig langar í. Þannig að á viðkvæmu augnabliki missti hann út úr sér: "fyrst þú átt stórafmæli núna, þá getum við alveg keypt vél fyrir þig".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)